Góð verkefnastaða í desember í smiðjunni
Á meðan deilt er á Alþingi um afskriftir og skuldaleiðréttingar gengur allt sinn vana gang í Snæfellsbæ. Eins og flestir vita er sjósókn undirstöðuatvinnugrein Snæfellsbæjar en í þeirri atvinnugrein hefur ríkt mikil óvissa bæði hvað varðar úthlutun fiskkvóta og svo hvað varðar leiðréttingu lána til útgerðarmanna. Fyrir þeirri óvissu hefur Vélsmiðja Árna Jóns á Rifi fundið fyrir í formi þess að útgerðarmenn reyna að treina í lengstu lög að breyta eða laga báta sína sökum óvissu. „Haustið var rólegt þ.e.a.s. lítið um framkvæmdir en fyrir miðjan desember mánuð verða teknir upp sex bátar og er því tekið fagnandi“ segir Árni Jón framkvæmdarstjóri og bætir því að við að verkefnastaða næstu mánuði sé ágæt. Á meðfylgjandi mynd má sjá Guðbjart SH-45 í vélaupptekt ásamt Manga á Búðum SH-85 sem er einnig í vélaskiptum.