"Almyrkvi á tungli stendur nú yfir og sést hann greinilega á höfuðborgarsvæðinu . Almyrkvinn hófst klukkan 7:40 og stendur yfir til klukkan 8:54. Tunglmyrkvann ber upp á vetrarsólstöður, stysta dag ársins og sést hann í Norður-Ameríku, Mið-Ameríku, hluta Suður-Ameríku, á Grænlandi og Íslandi. Seinast sást almyrkvi frá Íslandi aðfaranótt 21. febrúar 2008.
Afarsjaldgæft er að almyrkva á tungli beri upp á sama dag og vetrarsólstöður eins og í dag en á vetrarsólstöðum er sólin lægst á himni á norðurhveli jarðar. Þetta gerðist síðast fyrir 456 árum síðan eða árið 1554, samkvæmt upplýsingum frá NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna.
Erlendir fjölmiðlar hafa rifjað upp í tilefni dagsins hvað gerðist árið 1554 en það var fátt markvert. Einna helst að Lady Jane Gray var hálshöggvin fyrir föðrulandssvik en hún hafði ríkt sem drottning Breta í níu daga árið áður.
Hér á Íslandi gerðust tveir atburðir sem teljast markverðir. Annar var að klausturhald var lagt formlega og endanlega niður hér á landi 1554. Eftir það skipaði Danakonungur sérstaka umboðsmenn yfir rekstur eigna klaustranna.
Hinn er að eldgos varð við Vondubjalla um 10 km suðvestur af Heklu. Gosið stóð í 6 vikur og myndaði Rauðubjalla en frá eldstöðinni rann það sem kallað er Pálssteinshraun."
Frétt fengin af www.visir.is