"Rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Dröfn RE, heldur af stað í dag í Breiðafjörð til síldarrannsókna. Markmiðið er að kanna útbreiðslu stofnsins þar, magnmæla hann og síðast en ekki síst að meta Ichthyophonus sýkinguna sem herjað hefur á stofninn frá árinu 2008 og valdið miklum afföllum bæði í ungsíld sem og veiðistofninum. Þetta kemur fram á vef Hafró.
Eins og undanfarna tvo vetur hefur verið fylgst með þróun sýkingarinnar yfir alla vertíðina og er þessi rannsóknarleiðangur liður í því. Dröfn var einnig á þessum slóðum síðastliðinn október við rannsóknir og byggði Hafrannsóknastofnunin tillögur um aflamark á síld fyrir yfirstandandi vertíð meðal annars á niðurstöðum þeirra. Hafrannsóknastofnun segir, að sýni tekin úr afla nótaskipa hafi reynst mikilvægari en trollsýni rannsóknaskipa til að meta sýkinguna í stofninum en eitt síldarskip sé enn við veiðar í Breiðafirði, Hákon EA. Áætlað er að Dröfnin verði við mælingar í fimm daga að þessu sinni og svo aftur í fimm daga á sömu slóðum undir lok febrúar."
Frétt: www.skessuhorn.is