Borgfirsku árnar búnar að ryðja sig
Í kjölfar mikilla hita um helgina ruddu borgfirsku árnar sig í gær. Flestar um miðjan dag en stífla í Norðurá brast þó ekki fyrr en um níuleitið í gærkvöldi. Árnar eru runnar saman í eina þegar Hvítá fer framhjá Hvítárvöllum og Ferjukoti. Þorkell Fjeldsted bóndi í Ferjukoti segir að töluvert flóð hafi verið í gærkvöldi með um 30 cm þykku klakahröngli þegar stíflan í Norðurá brast. Flæddi áin því yfir vegi við Hvítárvelli og Ferjukot. Þorkell segir að þetta sé mesta flóð í ánni sl. þrjú ár en ekki að stærðargráðu á við stærstu flóð sem hann muni. Þorkell býst við að einhverjar girðingar hafi farið illa vegna ísburðar en það komi betur í ljós þegar birti af degi. „Verst er þó að missa allan þennan snjó úr fjöllunum og gæti það haft áhrif á árnar næsta sumar og fiskgengd ef ekki bætir aftur í snjó fyrir vorið.
Mynd: Stangveiðifélag Reykjavíkur.
Frétt fengin af skessuhorn.is 24. janúar 2011.