Aflinn kominn yfir þúsund tonn í Rifi
„Aflabrögðin hafa verið vel viðunandi en gæftirnar svolítið misjafnar, sérstaklega hefur vestanáttin verið minni bátunum óhagstæð. Vertíðin er komin á fullt og fjöldi báta sem leggur upp hjá okkur,“ segir Björn Arnaldsson hafnarvörður Snæfellsbæjarhafna. Björn segir að um 45 bátar séu gerðir út frá höfnunum, um 20 frá bæði Ólafsvík og Rifi og fimm frá Arnarstapa. Í Rifi er fjöldi stóru bátanna mestur. Þar var aflinn kominn í rétt tæp þúsund tonn fyrir síðustu helgi og fór yfir þúsund tonnin nú í byrjun vikunnar.
Björn segir að í Ólafsvík séu flestir bátarnir á dragnót eða þorskanetum og í Rifi séu stóru bátarnir á línu þar af fjórir með beitningavél. „Þeir hafa verið að fá ágætt á línuna og líka í netin. Aflabrögð bátanna á dragnótinni eru þokkaleg, en ég hef þó ekki skoðað samanburð við síðustu vertíðir,“ segir Björn.
Samkvæmt aflaskrám yfir þrjár fyrstu vikur ársins er var samtals fyrir helgina komin í Rif 999 tonn í 121 veiðiferð. Hefur aflinn verið þar svipaður allar þrjár vikur ársins sem liðnar eru, á fjórða hundrað tonn í viku hverri. Í Ólafsvík var fyrir helgi búið að landa 496 tonnum í 127 veiðiferðum. Veiði bátanna sem þar leggja upp er misjöfn milli vikna, en hefur aukist í hverri viku frá ársbyrjun. Á Arnarstapa var búið að færa á land 250 tonn í 49 veiðiferðum. Þaðan var aðeins farið í sjö veiðiferðir í síðustu viku, en þær voru 18 í vikunni á undan og 24 í fyrstu viku ársins.
Frétt og mynd fengin af skessuhorn.is