Björgunarbáturinn Björg frá Rifi
Mynd: Landsbjörg
Áhöfn björgunarbátsins Bjargar í Rifi aðstoðaði vélarvana bát undir Látrabjargi í gær og mun draga hann til hafnar í Rifi. Tilkynning barst um hálfáttaleytið í gær um bátinn, en á leiðinni út var Björgu tilkynnt um leka í báti á norðanverðum Breiðafirði. Skipverjar á Björgu lögðu því lykkju á leið sína, komu dælu um borð í bátinn, en lekinn virtist ekki eins alvarlegur og í fyrstu horfðist. Hosa hafði gefið sig. Skipstjórinn á Björgu sagði að bátarnir tveir væru báðir frá höfnum í Snæfellsbæ og hefðu verið á steinbítsslóðinni þegar þessu óhöpp komu upp. Skipverjar í bátunum munu ekki hafa verið í teljandi hættu. Sigurður Garðarsson skipstjóri á Björginni sagði í samtali við Skessuhorn að komið yrði með vélarvana bátinn að bryggju í Rifi um kaffileytið í dag(í gær), siglingin frá Látrabjargi tæki um fjóra tíma."
Frétt: skessuhorn.is