Forsíða Þjónusta
Fréttir Fyrirtækið

Grein um spilkerfið í Steinunni SH í Ægi
3.11.2009

8. tölublað 2009.

 

Útgerðartækni

 

Steinunn SH-167.

  

Vélsmiðja Árna Jóns ehf.:

Nýtt spilkerfi í Steinunni SH-167

 

Vélsmiðja Árna Jóns ehf. og Landavélar hf. luku nú nýverið við veigamiklar breytingar á spilkerfi um borð í Steinunni SH-167. Breytingin fólst í því að framgír ásamt spjaldadælum og kúplingu voru fjarlægðar og sett tvöföld stimpildæla sem er beintengd við aðalvél.  Jafnframt voru settir viðeigandi stjórnlokar.

 

Afköstin óháð vélarsnúningi

Kerfið um borð virkaði þannig áður að þegar nota þurfti vökvakerfið, hvort sem var við togvindur, bógskrúfu, ankersvindur, löndunarspil eða netaspil var kúplað að framgír og spjaldadælur dældu af fullum krafti óháð því hve mikil notkun var í gangi. Það eina sem stýrði dælingunni var snúningshraði vélarinnar sem gerði það að verkum að snúningshraði spila, vinda og bógskrúfu fór algjörlega eftir snúningshraða aðalvélar, allt eftir því hvað var í notkun hverju sinni. Það leiddi til þess að olía á spilkerfinu hitnaði upp í 75–80°c og fullt álag var á öllu vökvakerfinu allan tímann sem framgír var í gangi, þ.e. í raun allan tímann meðan báturinn er á sjó að undanskildu þegar báturinn er á siglingu. Einnig leiddi þetta af sér töluverðan hávaða þar sem fullur þrýstingur var alltaf á kerfinu.

Sá búnaður sem settur var í Steinunni SH-167 samanstendur af tvöfaldri stimpildælu, sem er magnstýrð sem þýðir að dælan heldur alltaf þrýstingi upp á 20 bar að stjórnkistu en þegar t.d. togvinda er notuð skynjar dælan það og dælir því magni sem þörf er á til hennar. Þegar ekki er verið að nota vökvaknúinn búnað bíður dælan og heldur einungis lágmarksþrýstingi. Snúningshraði vélarinnar hefur því engin áhrif á afköst vökvabúnaðarins. Þar sem álagið á vökvakerfinu minnkar mikið við þetta hefur hitinn á því lækkað niður í 50°c eða sem samsvarar 35%.

 

Skilar minni olíunotkun

Árni Jón Þorgeirsson, framkvæmdastjóri hjá Vélsmiðju Árna Jóns, segir að búnaðurinn í Steinunni SH hafi skilað minna álagi á aðalvél og þar með minni olíunotkun. „Helsta breytingin fyrir skipverja er að hávaði í spilkerfinu hefur minnkað verulega og hægt er t.d. að hlusta á útvarp á millidekki þó svo að spilkerfið sé í fullri notkun. Þetta var ekki hægt með fyrri búnaði.

Önnur áhrif sem þessi búnaður hefur er að með fyrri búnaði var togspil látin „fríhjóla“ þegar togvírum var kastað sem leiddi til þess að oft gat myndast mikill slaki á togvírinn og bugtir á dekkinu. Ekki var því hægt að vera á millidekki þegar tógi var kastað vegna slysahættu. Nýi  búnaðurinn er með stýrðri útslökun sem gerir það að verkum að alltaf er t.d. 200 kg. togkraftur á togvírunum. Togspilin auka eða minnka hraða og halda alltaf sama togkrafti óháð hraða bátsins eða sjólagi. Það myndast því aldrei slaki eða bugt á togvírinn. Í gamla kerfinu virkaði bógskrúfa ekki nema aðalvél væri á 1.100 snúningum en nú snýst bógskrúfan algjörlega óháð hraða aðalvélar," segir Árni Jón.

Ljóst er að breytingin hefur fjölmarga kosti hvað varðar olíusparnað, þægindi og öryggi áhafnar. Eins og áður hefur komið fram þá finnur áhöfnin mikinn mun á hávaða og t.d. getur sá sem stjórnar spili við löndun verið í góðu sambandi við skipverja í lest, en það var ekki hægt áður vegna hávaða. Að auki segir Árni Jón að áhafnarmeðlimir finni mikinn mun á sér hvað varðar suð fyrir eyrum þegar í land er komið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vélsmiðja Árna Jóns ehf. þakkar útgerð Steinunnar SH-167 kærlega fyrir góða samvinnu og óskar eigendum og starfsmönnum enn og aftur til hamingju með breytingarnar. 

 

 

www.arnijon.is

 

 

 

 


<< Til baka

Innskráning
Hafa samband

Þjónustunúmer:
436 6500

Netfang:
arnijon@arnijon.is

Áhugaverðar vörur

Frumvarp til laga um höfn á Rifi (1946)
Hrafn, komd þú sæll!

Tenglar


Leit

Leitarorð:




Vélsmiðja Árna Jóns | Smiðjugötu 6 | 360 Hellissandur (Rif) | Um vefinn